Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fáránlegur samningur Orkuveitunnar við Magma

Í ársreikningi Orkuveitu Reykjavíkur 2008 (http://www.or.is/media/PDF/Orkuveita_Reykjavikur__samstaeda_2008.pdf , kafli 22.) sést að hún skuldar um 32 milljarða islenskar í dolluralánum með lokagjalddaga 2028. Meðalvextir á þessum lánum eru í árslok 2008, 2,66% eða meira ein einu prósentustigi hærri en vextirnir á Magma kúlúláninu sem eru 1.5%. Vextir Orkuveitunnar virðast einnig vera breytilegir því dollaralánin þeirra voru á meðalvöxtum 4.46% í árslok 2007.

Nú eru vextir í heiminum í lágmarki og má búast við að þeir hækki eitthvað á næstu árum, þannig að vextirnir á lánum Orkuveitunnar munu þá verða hærri en 2.66%. Tala nú ekki um ef þeir þurfa að endurfjármagna sig í dollurum þar sem skuldaálag á flestallt íslenskt er hátt um þessar mundir og því munu þeir ekki fá jafngóð kjör ánæstunni eins og þeir hafa haft undanfarin ár.

Það að talsmaður Orkuveitunnar í sjónvarpinu um dagin segi að Magmakúlulánið henti vel í lánasafn Orkuveitunnar er þvæla, í raun lýgi. Af hverju ætti Magma að fá lægri vexti af dollaraláni frá Orkuveitunni en Orkuveitan fær sjálf á almennum lánamarkaði?

Athugið einnig að þó að nú sé verðhjöðnun í Bandaríkjunum þá hefur verðbólga undanfarinna ára verið yfir 1.5% (http://www.inflationdata.com/inflation/Inflation_Rate/CurrentInflation.asp) þannig að þessi vextir munu að öllum líkindum ekki duga fyrir rýrnun dollaranns á tímabilinu.

Kúlulan til 7 ára með engum vaxtagreiðslum inná milli? Og einu veðin eru í lánunum sjálfum? Það þýðir í raun að ef það er tap og Magma lendir í vandræðum þá lendir ábyrgðin á Orkuveitunni. En ef Magma græðir þá fær Orkuveitan skitna 1.5% vexti sem duga líklegast ekki fyrir verðbólgu dollarans.

Í raun er verið að gefa Magma þennan hlut til næstu 7 ára, því eftir 7 ár þá munu Magma einfaldlega geta ákvarðað hvort þessi fjárfesting sé greiðslu bréfanna virði eða ekki og ákveðið þá hvort þeir greiði þetta lán eða skili fyrirtækinnu aftur til orkuveitunnar með því að velja að greiða þau ekki.

Þessi díll er fullkomlega fáránlegur.


Skattaundanskotstrik Sigurjóns Þ. Árnasonar

Ýmislegt hefur verið rætt varðandi einkalífeyrissjóð Sigurjóns Þ. Árnasonar og þess gjörnings þegar hann lætur sjóðin kaupa skuldabréf af sjálfum sér.  Margar spurningar hafa komið upp um lögmæti þessa gjörnings.  Eitt er þó víst að gjörningurinn hefur í för með sér undanskot frá skatti.  Enginn hefur bent á í hverju það undanskot er fólgið en ég ætla að reyna að útskýra það hér.

Undir venjulegum kringumstæðum liggur séreignarsparnaðurinn undir ávöxtun og við útborgun er upphæð þeirrar ávöxtunar skattlöggð (ásamt höfuðstól) með tekjuskatti sem er nú um 38%

Það sem Sigurjón er í raun að gera er að gera séreignarsjóðinn sinn ávöxtunarlausan með því að lána sér vaxtalaus bréf úr honum.  Hann getur því sótt sér ávöxtun útá þessi lán og greitt af þeim lögbundin fjármagnstekjuskatt sem er 10%.

Hann er því að spara sér 28% skatt af vöxtunum sem ættu að vera í sjóðnum en ekki utan hans.  Í því eru skattsvikin fólgin.

Ég setti upp exelskjal sem hægt er að nota til að reikna út hagnaðinn af séreignarsparnaðartrikki sigurjóns miðað við mismunandi forsendur og þá skoða hvað ég mundi hagnast ef ég fengi að nota mínar 3 millur í séreignasparnaði með sama hætti og Sigurjón.   

Ég gaf mér meðalverðbólgu uppá 8% og 5% vexti.

Séu peningarnir venjuleg laun sett í hefðbundin sparnað þá skila 70 milljónir um 170 til eiganda og 146 til skatts.

Séu peningarnir séreignasparnaður þá skila 70 milljónir um 196 til eiganda og 120 til skatts.

Sé séreignasparnaðartrikk Sigurjóns notað þá skila 70 milljónir um 230 til eiganda og 87 í skatt.

Hann er þá miðað við ofangreindar forsendur að stinga undan um 28% af lögbundnum skatti.

Ef mætti nota mínar 3 milljónir með sama hætti og Sigurjón þá fengi fengi ég (eftir 12 ár) um 9,8 milljónir og borgaði 3,7 í skatt, í stað þess að fá 8,4 milljónir og greiða 5,1 milljón í skatt ef ávöxtunin væri í séreignarsjóðnum eins og lög gera ráð fyrir.

þ.e. ég fengi 1,4 milljón meira.

Það er því alveg ljóst að ef þessi gjörningur verður dæmdur löglegur þá fer ég strax og lána mér allan minn lífeyrissparnað í hvelli á engum eða smánarvöxtum og geymi hann á einhverjum góðum verðtryggðum reikningi.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tekjur þjóðarinnar vegna álframleiðslu og skakkt mat á viðskiptahalla

Verðmætasköpun áliðnaðarins árið 2008 var um 120 milljarðar, 760.800 tonn af áli að verðmæti 180 milljarðar var flutt út á árinu en 60 milljarðar fluttir inn af súráli (1).  Raforkunotkun vegna þessarar framleiðsu er um 14,5 megawatt fyrir eitt ál tonn (2) sem gefur samtals raforkunotkun álvera árið 2008 um 1.1 Terawatt.  Ýmsar tölur virðast vera í gangi varðandi raforkuverð.  Landsvirkjun hefur í yfirlýsingum sínum gefið í skyn verð nálgist $30 fyrir megawattið þegar álverð sé mjög hátt (3) en erfitt er þó að átta sig á því hvað þeir eiga við með orðalaginu "nálgast $30" og álverð er einnig lágt nú um stundir.  Flest bendir hinnsvegar til að verðið sé undir $20 (4,5).  Ef við leyfum Landsvirkjun að njóta vafans og reiknum með allt að $25 fyrir megawattið þá er samtals raforkusala miðað við núverandi gengi 110 kr/$ um 30 milljarðar.  Skatttekjur vegna álvera eru ansi takmarkaðar eða innan við 1.2 milljarðar (6).  Fastir starfsmenn í beinum störfum í álverum eru undir 1500 (7) og ef við reiknum með 600.000 kr launakostnaði per starfsmann þá er beinn launakostnaður um 10 milljarðar.  Einhver önnur aðkeypt innlend þjónusta er væntanlega í ársreikningum álfyrirtækja, en hún hleypur varla á mörgum milljörðum.  Þegar þetta er dregið saman fæst þá að af samtals 120 milljarða verðmæta sköpun áliðnaðarins verða um við 45 eftir í landinu.  Restin eða um 75 milljarðar rennur úr landi til eigenda álfyrirtækjanna.  Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar stærð eins og vöruskiptajöfnuður er skoðaður því þetta virði sem álfyrirtækin halda eftir verður að draga frá vöruskiptajöfnuðinum til að fá rétta mynd.  Vöruskiptajöfnuðurinn árið 2008 var því í raun ekki neikvæður um 5.5 milljarð heldur um 80 milljarða.  Vöruskiptajöfnuðurinn er nauðsynlegt mælitæki til að mæla þann afgang af tekjum þjóðarinnar sem til ráðstöfunar er við niðurgreiðslu erlendra skulda.  Hann verður þó að færa niður um 6 milljarða á mánuði ef hann á að sýna rétta mynd greiðslugetu þjóðarinnar.  Nýlegar fréttir af bráðabirgðamati hagstofunar um vöruskiptajöfnuð við útlönd uppá 6 milljarða afgang(8) verður því að skoða í þessu samhengi því í raun er réttara mat að hann sé en sirca á núlli.  Heildar vaxtagjöld af erlendum skuldum opinbera geira þjóðarinnar (ríkið,sveitarfélög,orkufyrirtækin og nýju bankarnir) er varlega áætlað meira 4 milljarðar á mánuði (meira um það síðar) þannig að um 4 milljarða viðsnúning á vöruskiptajöfnuði þarf til viðbótar ef þjóðin á að geta greitt vextina af lánum sínum án þess að selja verðmætustu eignir sínar úr landi.

 


Heimildir

  1. www.hagstofan.is
  2. http://soloweb.samorka.is/Apps/WebObjects/Samorka.woa/1/swdocument/1000751/Tóman+Már+Sigurðsson.pdf?wosid=false
  3. http://www.lv.is/newsItem.asp?catID=109&ArtId=908
  4. http://www.malefnin.com/ib/index.php?showtopic=3698&pid=85986&mode=threaded&start=0#entry85986
  5. http://www.malefnin.com/ib/index.php?showtopic=3698&pid=248935&mode=threaded&start=0#entry248935
  6. http://web.mac.com/inhauth/Indriði_H._Þorláksson/Ágrip_síðustu_greinar_files/Efnahagsleg%20áhrif%20erlendrar%20stóriðju.doc
  7. http://www.althingi.is/altext/136/s/0431.html
  8. http://www.hagstofa.is/Pages/95?NewsID=3922">http://www.hagstofa.is/Pages/95?NewsID=3922">http://www.hagstofa.is/Pages/95?NewsID=3922


Verðtryggingarvandinn leystur.

Raunvextir lána í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við eru nú neikvæðir. Þetta er gert svo heimili og fyrirtæki geti greitt af lánum sínum á krepputíð frekar en að fara í þrot. En verðtryggð íslensk lán geta aldrei borið neikvæða raunvexti miðað við núverandi útfærslu vísitölutryggingar. Þessu er þó auðvelt að breyta.

Raunvextir af íbúðalánum á Íslandi og í þeim löndum, sem við berum okkur saman við, eru að öllu jöfnu jákvæðir. Þeir sem lána fá lán sín greidd til baka að verðmæti sem er hærra en núvirt upphæð upphaflegs láns. Þetta er vegna þess að á Íslandi eru lán verðtryggð og með vöxtum þannig að lánveitendur fá lánið greitt að fullu verðtryggt og með vöxtum. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við eru lánin ekki verðtryggð en bera þó vexti sem eru hærri en verðbólga í viðkomandi landi. Þessi vextir eru að öllu jöfnu jákvæðir en ekki alltaf. Í kreppu eins og nú leggst yfir hinn vestræna heim dragast ráðstöfunartekjur heimilanna saman á meðan verðbólga eykst. Í flestöllum löndum sem við berum okkur saman við verða raunvextir þá tímabundið neikvæðir því valdhafar hækka ekki vexti íbúðarlána í takt við verðbólguna á slíkum tímum. Þeir vita að slíkt er órað. Það skapar einungis meiri samdrátt í samfélaginu, fleiri gjaldþrot og meiri örbyrgð sem kemur á endanum niður á lánveitendum einnig. Þeir velja því þá leið að hafa raunvexti neikvæða um tíma vitandi það að með því jafnar almenningur og atvinnulífið sig fyrr á kreppunni, færri gjaldþrot lenda á lánveitendum og raunvextir verða aftur jákvæðir. Þeir eru því tilbúnir að taka á sig tímabundið tap vitandi það að til lengri tíma litið eru raunvextir af lánum alltaf jákvæðir. Þeir munu því ávallt hagnast á endanum. Í því lánaumhverfi sem almenningur á Íslandi hrærist í er enginn slík kreppuvirkni. Eins og samspil vaxta og verðtryggingar er háttað eru raunvextir ávallt jákvæðir, sama hversu alvarlegar kreppur ríða hér yfir. Eins og að framan er talið stefnir það eignum lánþega í meiri voða en ef lánveitendur væru tilbúnir að taka á sig neikvæða raunvexti um tíma í þeirri von að lánþegar fari síður í þrot, jafni sig fyrr á kreppunni og geti enn á ný greitt jákvæða raunvexti án vandkvæða.

Það er því ljóst að þegar lög um vísitölutryggingu lána voru sett gleymdist einfaldlega að setja inn einhver ákvæði sem veita möguleika á neikvæðri raunávöxtun í krepputíð. Í venjulegu árferði má færa rök fyrir því að lán fylgi neysluverðsvísitölu til að tryggja kaupmátt lífeyrissparnaðar og annarra verðtryggðra útlána. Í kreppuárferði stendst þó ekki að vísitölutryggð lán fylgi neysluverðsvísitölunni. Slíkt er óráð eins og hér að framan er talið og aðrar þjóðir vita. Hvað er þá til ráða? Hvaða vísitala mælir kreppuástand? Eina vísitalan sem mér dettur í hug, sem næst er ráðstöfunartekjum almennings er launavísitala. Með einföldum hætti væri hægt að breyta verðtryggðum lánum þannig að þau fylgi nýrri vísitölu sem að öllu jöfnu fylgir neysluverðsvísitölu en tekur þó tillit til óeðlilegrar mismunar á hækkun neysluverðsvísitölu umfram launavísitölu svo raunvextir í krepputíð geti verið neikvæðir. Ýmsar útfærslur á slíkri lánavísitölu sem væri einhverskonar samspili neysluverðsvísitölu og launavísitölu er hægt að hugsa sér og er sú sem ég legg hér fram einungis ein af mörgum sem koma til greina. Ég vona þó að hagfræðingar og aðrir sem málið varðar skoði alvarlega hvernig hægt er að koma inn í nýja lánavísitölu þeirri virkni að neikvæðir kreppuraunvextir séu mögulegir á Íslandi. Það ætti síðan að vera jafn auðvelt og þegar lánskjara og byggingavísitölurnar voru afnumdar og neysluverðsvísitala tók við í byrjun síðasta áratugar að innleiða nýja lánskjaravísitölu sem hefði þessa nýju virkni á öll verðtryggð lán.

Skilgreining á nýrri lánskjaravísitölu

Fylgir neysluverðsvísitölu að öllu jöfnu nema ef hækkun neysluverðsvísitölu undanfarin 3 ár er hærri en hækkun launavísitölu, þá breytist útreikningur lánskjaravísitölunnar þannig að hún fylgir launavísitölu uns hækkun hennar frá því að hún tók við neysluverðsvísitölunni er orðin jafn há og hækkun neysluverðsvísitölunnar á sama tíma.

Dæmi: í október 2008 var hækkun launavísitölunnar frá október 2006 hærri en hækkun neysluverðsvísitölunnar á sama tíma. Þá fylgir lánskjaravísitalan neysluverðsvísitölunni eins og venjulega. Í desember 2008 er hækkun launavísitölunnar frá desember 2006 lægri en hækkun neysluverðsvísitölunnar á sama tíma. Þennan mánuð er lánskjaravísitalan reiknuð þannig að hækkun hennar frá desember 2006 til desember 2008 sé sú sama og hækkun launavísitölunnar. Frá þeim degi fylgir lánskjaravísitalan hækkun launavísitölu uns hækkun hennar frá desember 2008 er orðin jafn há og hækkun neysluverðsvísitölunnar á sama tíma.

Þróun launavísitölu miðað við neysluverðsvísitölu bæði miðað við hækkun launavísitölu umfram neysluverðsvísitölu síðustu 2ár, 3ár og 4 ár:

visitala01

Nýja lánskjaravísitalan mundi þá fylgja launavísitölunni frá des 2008 fram að þeim tíma þegar hækkun launavísitölunnar frá des 2008 mundi vera jafn há og hækkun neysluverðsvísitölunnar á sama tíma. Hér fylgir mynd þar sem ég geri ráð fyrir að hækkun neysluverðsvísitölunnar verði meiri en launavísitölunnar fram að janúar 2010, en þá mundi lánskjaravísitalan aftur fylgja neysluverðsvísitölunni. Græna lína sýnir hvernig nýja lánskjaravísitalan fylgir hinum tveim vísitölunum.

visitala02

Það má segja að þessi tillaga komi til móts við þau andstæðu sjónarmið varðandi vísitölutrygginguna sem nú takast á vegna kreppunnar. Með þessari aðferð væri hækkun vísitölunnar ekki fryst heldur frestað uns launavísitalan skríður aftur framúr neysluverðsvísitölunni. Frestun vísitölutryggingarinnar ber þó ekki vexti og vaxtavexti eins og núverandi tillaga ríkistjórnarinnar um að taka upp aftur gömlu jöfnunarlánin felur í sér. Lánveitendur tapa því ekki þó þeir gefi að vísu eftir einhverjar tekjur í kreppunni. Þessi nýja lánskjaravísitala fæli jafnframt í sér hvata fyrir lánveitingar þegar botni kreppunar er náð því þá er innistæða fyrir talsverðri hækkun vísitölunnar innifalin í kerfinu. Einnig ætti þetta að vera hvati til þeirra sem það geta að spara og greiða upp (eða inná) lán í kreppunni svo þeir losni undan þessari sömu hækkun.


Hugleiðingar um óréttláta vísitölutryggingu lána

Vísitala er í raun þennsluhvetjandi því ef gengið fellur (vegna gengisfellingar á efnahagskerfinu í heild) þá hækkar vísitalan sem veldur því að það fara sjálfkrafa fleiri krónur í umferð. Þ.e. vísitölutryggðar krónur. Þessháttar innspýting á fjármagni er verðbólguhvetjandi eins og allir hagfræðingar vita þannig að með vísitölutryggingu lána er þessi sjálvirka peningainnspýting vísitölutryggingarinnar auka þennsluhvati

Einfalt dæmi er ef 1000 krónur eru í peningakerfinu óverðtryggt en 1000 krónur vísitölutryggt og gengið fellur um 20% sem mundi valda 10% vísitöluhækkun (það innlenda mundi kanski ekki hækka eins mikið) þá fara sjálfkrafa 100 kr í umferð og staðan væri þá 1000 kr óverðtryggt og 1100 kr verðtryggt. Ef gengisfellingin var sanngjörn gagnvart verðmætum vs peningar þá þarf í raun að bæti við 5% gengisfellingu í viðbót, og svo aftur 1/4 af því ´(o.s.fr.) til að jafnvægi fáist milli magn peninga í umferð og undirliggjandi verðmæta. Þetta þýðir þá í raun að gengisfellingar verða í raun meiri og valda óeðlilegri peningatilfærslu frá þeim sem skulda til þeirra sem eiga verðtryggðar eignir. Óréttlátt kerfi sem þetta er hvergi annarstaðar í heiminum. Ég lagði þetta undir ónefndan hagfræðin sem svaraði mér:

Þetta er hárrétt hjá þér og þessi verðtrygging er líka mjög slæm af mörgum öðrum ástæðum. Hækkun stýrivaxta virkar lítið í hagkerfi sem býr við verðtryggingu vegna þess að t.d. fasteignaverð er falið að því marki sem bætt er við höfuðstólinn í stað þess að fólk verði að borga um leið. Verð fasteigna ræðst mest af getu einstaklingsins til þess að borga ákveðna upphæð mánaðarlega. Ef þessi upphæð er lækkuð með hundakúnstum eins og verðtryggingu þá kaupir einstaklingurinn dýrara húsnæði (eða býður of hátt í eign). Þegar markaðurinn var síðast á uppleið þá kostaði allt húsnæði sennilega 10 - 15% meira en ef fólk hefði þurft að slá lán eins og í öðrum löndum (sem greiðist niður með hverri afborgun).

Annað tæknilegt atriði varðar bankakerfið. Bankarnir hefði ekki getað leikið sér af því að fella gengið ef skuldir Íslendinga við þá hefðu ekki verið verðtryggðar. En bönkunum stóð nákvæmlega á sama um verðbólguna sem þeir sjálfir sköpuðu með gengisfellingum vegna þess að lán í íslenskum krónum hækkuðu í takt. Bankarnir græddu því á báðum endum!

tilvitnun lýkur..

 

Hér er einnig meir umræða um vísitölutryggingu hjá Bryndísi að frumkvæði Ingólfs h. Ingólfssonar:   http://bryndisisfold.eyjan.is/2008/11/10/afnam-verdtryggingar/


Nýir tímar

Þeir sem ennþá eru staddir í gömlum pólitískum skotgröfum stilla upp vali á milli núverandi ríkistjórnar og nýrrar stjórnar sem vali á milli lýðræðis og skrílræðis.  Ekkert er eins fráleitt.  Í samfélagi okkar, meira að segja innan stjórnmálaflokkanna, er fullt af skynsömu og kraftmiklu fólki, jafnt fagmönnum sem ófaglærðum, sem gagnrýnt hafa þá efnhagsstefnu og pólitískar ákvarðanir sem hafa leitt okkur í algjört efnahagslegt hrun.  Margir hafa bent á aðrar leiðir úr vandanum en þá sem pólitísk réttrúnaðarstefna núverandi ríkisstjórnar býður uppá.  Það er bráðnauðsynlegt að nýjar raddir og nýtt fólk komi að við úrlausn þessa aðkallandi vanda.  Nýtt fólk úr öllum geirum atvinnulífsins og mannlífsins þarf að kalla til.  Nýfrjálhyggjustefnan er dauð.  Hún hefur eyðilagt marga mikilvægustu innviði samfélagsins og steypt okkur í mesta skuldapytt sem þjóðin hefur upplifað, og henni ber að víkja.  Það er hin mesta svívirða að þeir sem standa fyrir þeirri efnahagsstefnu sem kollvarpað hefur íslensku samfélagi skuli dirfast að bjóða okkur uppá sömu stefnu til úrlausnar.  Sú ríkisstjórn sem nú situr verður að hverfa frá.  Hún á ekki traust kjósenda skilið.

Það er eðlilegast, eins og málin standa, að mynduð verði utanflokks ríkisstjórn fram að nýjum kosningum, sem þarf að efna til um leið og núverandi flokkar hafa gengið í gegnum nauðsynlega endurnýjun með nýju fólki og nýjum hugmyndum.  Hvernig sú utanflokksstjórn verður mynduð læt ég aðra um að skipuleggja.  Löggjafarþingið myndi þó væntanlega sitja fram að kosningum.  Við sem stöndum að hópnum Nýir tímar erum einungis að krefjast eðlilegra breytinga á stjórnskipulagi sem við teljum að meirihluta þjóðarinnar óski eftir.  Að öðru leyti hefur hreyfingin enga pólitíska stefnu eða markmið.

Það sem ég persónlulega tel þó nauðsynlegt við uppbygginu á nýju lýðræði og betra samfélagi er meiri valddreifing og aukið sjálfstæði stofnana í landinu.  Vald spillir og því er óeðlilegt og beinlínis hættulegt að það safnist fyrir á fárra hendur.  Það hefur sýnt sig margsinnis að vald framkvæmdavaldsins er of mikið.  Framkvæmdavaldið skipar í öll embætti í stjórnkerfi landsins og hefur einnig sjálfkrafa þingmeirihluta til að stjórna löggjafarvaldinu.  Nokkrir aðilar fremstir í því pólitíska valdkerfi sem nú ríkir hafa því vald til að fylla embættismannakerfið af pólitískum jábræðrum og geta sömuleiðis, með krafti skósveina í eigin flokkum, stjórnað því hvaða lög eru sett í landinu.  Það ber að skoða alvarlega hvort það sé ekki tímabært að aftengja löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið með einhverjum hætti og það verður að finnast ópólitísk leið til að velja embættismenn í stofnanir landsins.  Það ætti að vera ljóst af árangri Seðlabankans undanfarin misseri í efnahagsmálum þjóðarinnar, að pólitískar puntudúkkur eru ekki best til þess fallnar að stjórna mikilvægustu stofnunum landsins, þegar nóg er af vel metnu og færu fagfólki.  Sjálfstæðar ópólitískar stofnanir þurfa að vera frjálsar til að gagnrýna stefnu stjórnvalda þrátt fyrir að þurfa að fylgja  henni, í stað núverandi stöðu, þegar stofnanir og stjórnendur þeirra eru múlbundnar stefnu stjórnvalda í krafti flokkavaldsins sem útvegaði þeim embætti.

Það er einlæg von okkar að núverandi þjóðfélagsumbrot leiði til sanngjarnara og réttlátara samfélags. Valddreifing er lykillinn að því að við getum búið við raunverulegt lýðræði, sú hætta er annars fyrir hendi að efnahagslegt og pólitískt vald muni færast á sífellt færri hendur.

Mætum öll í mótmælagöngu sem hefst á Hlemmi kl. 14:00 í dag, laugardag.


Engin aðgerðaráætlun til í Seðlabankanum

Enn ein afglöpp seðlabankanns sem eru að gleymast í umræðunni 

Sérstaklega alvarlegt er það að engin áætlun hafi verið til staðar hjá Seðlabankanum um hvað gera skuli ef einhver íslensku bankanna mundi lenda í alvarlegum lausafjárvandræðum.  Lausafjárkrísa búin að stigmagnast í meira en ár en engin áætlun var til staðar um hvað skuli gera ef bankarnir mundu lenda í vandræðum. 

Þegar Glitnir mætti loks á teppið hjá Davíð í lok septembervar engin slík áætlun til.  Það virðist vera þannig að Davíð í samráði væntanlega við Fjármálaráðherra og Forsetisráðherra hafi kokkað eitthvað upp í flyti sunnudaginn 28.9.2008, þar sem að sjálfsögðu var ekkert faglegt mat á því hvaða domino áhrif það mundi hafa á íslenskt fjármálakerfi, því enginn var tíminn.

En alvarlega er þetta ef Davíð er að meina það sem hann sagði að hann hefði varað við þess jafnvel séð þetta fyrir, en enga áætun gert?


Um bloggið

Birgir Þórarinsson

Höfundur

Birgir Þórarinsson
Birgir Þórarinsson
Höfundur er tónlistarmaður og tölvunarfræðingur
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • visitala02
  • visitala01
  • visitala02
  • visitala01
  • visitala02

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband