18.11.2008 | 21:18
Ábyrgð Seðlabankanns
Davíð var hress í morgun og benti okkur á að Seðlabankinn bæri enga ábyrgð á kreppunni og hefði varað stjórnvöld við um langa hríð.
Vandamálið er að þeir eru allir ábyrgir en halda að vegna þess að þeir bera ekki alla ábyrgð þá sé í lagi að sitja áfram. Þeir benda á hvorn annan, mikla mistök annarra en þegja yfir sínum. Ríkisstjórnin og fjölmiðlar bera að sjálfsögðu ábyrgð. Útrásarvíkingarnir bera mesta ábyrgð og vonandi varðar undanfarin hegðun þeirra við lög. Fjármálaeftirlitið ber þarnæst mesta ábyrgð og furðulegt að það skuli ekki vera búið að hreinsa þar út (hver skrifaði t.d. uppá leyfi Landsbankans fyrir Icesafe reikningunum? sá hinn sami skuldar okkur 600 milljarða).
Davíð er sannfærandi einstaklingur og það er engin furða hversu langt hann hefur náð í pólitík og hversu margir lepja upp það sem hann segir án gagnrýni. Ég er alls ekki að segja að Davíð hafi hér ekki rétt fyrir sér. Að sjálfsögðu er hegðun útrásarvíkinganna forkastanleg og helsta ástæða efnahagshrunssins. Þeir verða þó ekki dregnir til ábyrgðar nema þeir hafi brotið lög og er ég sammála Davíð í því að starfsemi bankana, fjármálaeftirlitssins og Seðlabankanns verður að rannsaka af óháðum aðilum og í opinni rannsókn því það er sanngjörn krafa að þjóðin öll geti fygst með þessum rannsóknum því við munum þurfa að borga fyrir þennan ósóma.
Það má þó ekki gleyma að Davíð Oddson og fylgisveinar hanns í fyrrverandi ríkisstjórnum bera fulla ábyrgð á því laga umhverfi sem bankarnir störfuðu í og er vægt til orða tekið þegar sagt er að það hafi verið algerlega ófullnægjandi. Meðan Davíð hamaðist sem ólmur væri við að koma lögum á fjölmiðla hér um árið, hefði kanski verið nær að setja einhver frekari lög um bankastafsemi á Íslandi. Þau krosseignatengsl sem þar voru milli banka og stærstu fyrirtækja landsins og hvernig bankarnir voru notaðir í þágu eigendanna í glórulausri útrás í gegnum ýmis fyrirtæki og eignarhaldsfélög voru forkastanleg og sýnir best hversu hættuleg stefna nýfrjálshyggjunnar var um fjármagn án eftirlits og laga sem Davíð og hanns skósveinar knúðu Íslendinga til fylgilags við.
Seðlabankinn ber einnig mjög mikla ábyrgð en eðlilega reynir Davíð að draga úr henni. Mistök Seðlanbankanns eru þó allavega eftirfarandi:
- Engum gjaldeyrisforða var safnað í góðærinu þó vitað væri að um óeðlilegt innflæði fjármagns vegna spákaupmanna og erlendra áhættusækinna vogunarsjóða. Davíð sagðist hafa varað stjórnvöld við árið 2006 en safnaði samt engum forða þó gengið á krónunni væri í algeru hámarki og erlendir gjaldmiðlar sérstaklega ódýrir.
- Bindiskyldan í lágmarki. Seðlabankinn hefði auðveldlega getað beitt bindiskyldunni á bankavíkingana og hamið þá eitthvað með því.
- Gæði ábyrgða minnkuð. Seðlabankinn lækkaði gæðakröfu veða frá bönkunum í byrjun síðasta sumars.
Alvarlegustu afglöppin eru þó eftirfarandi:
- Seðlabankinn vissi að í óefni væri að stefna. Seðlabankinn lagði ekki fram neina áætlun né hafði forgöngu um að slík áætlun væri sett saman um hvað skyldi gera ef einhver af íslensku bönkunum myndi lenda í þroti vegna yfirstandnandi lausafjárkreppu. Þegar formaður bankaráðs Glitnis mætir í seðlabankann þá kokkar Davíð upp yfirtöku Glitnis á sunnudagseftirmiðdegi án þess að neinir sérfræðingar væru kallaðir til að meta áhrif þessarar ákvörðunar á stöðu bankanna innlendis sem erlendis. Þessar aðgerðir ýttu af stað atburðarás sem engin réð síðan við. Gjalddagi lánsins sem Glitnir bað um fé fyrir var um 3 vikur fram í tímann og hefði á þeim tíma verið hægt að undirbúa aðkomu ríkissins að bankakreppunni með betri hætti.
- Önnur mistök sem ekki endilega flokkast sem afglöpp í starfi - og þó - er stýrivaxtastefna Seðlabankanns undanfarin ár. Hún átti að vera til þess að minnka þenslu en varð til þess að eftirspurn eftir íslenskum hávaxta krónum jókst bæði hjá erlendum fjárfestum, sem vildu komast í þessa háu vexti, og hjá almenningi, sem tók erlend lán til að komast í lægri vexti og skipti þeim í krónur, t.d. við íbúðakaup. Stýrivaxtastefna Seðlabankanns olli því óeðlilegu innflæði fjármagns og óeðlilega háu gengi krónunar. Margir bentu á þessa hættu en Seðlabankinn kaus að hafa þessi ummæli að engu.
- Ýmis óheppileg ummæli Seðlabankastjóra fyrstu vikurnar í Október voru heldur ekki til að bæta ástandið.
Um bloggið
Birgir Þórarinsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.