1.11.2008 | 11:49
Nýir tímar
Þeir sem ennþá eru staddir í gömlum pólitískum skotgröfum stilla upp vali á milli núverandi ríkistjórnar og nýrrar stjórnar sem vali á milli lýðræðis og skrílræðis. Ekkert er eins fráleitt. Í samfélagi okkar, meira að segja innan stjórnmálaflokkanna, er fullt af skynsömu og kraftmiklu fólki, jafnt fagmönnum sem ófaglærðum, sem gagnrýnt hafa þá efnhagsstefnu og pólitískar ákvarðanir sem hafa leitt okkur í algjört efnahagslegt hrun. Margir hafa bent á aðrar leiðir úr vandanum en þá sem pólitísk réttrúnaðarstefna núverandi ríkisstjórnar býður uppá. Það er bráðnauðsynlegt að nýjar raddir og nýtt fólk komi að við úrlausn þessa aðkallandi vanda. Nýtt fólk úr öllum geirum atvinnulífsins og mannlífsins þarf að kalla til. Nýfrjálhyggjustefnan er dauð. Hún hefur eyðilagt marga mikilvægustu innviði samfélagsins og steypt okkur í mesta skuldapytt sem þjóðin hefur upplifað, og henni ber að víkja. Það er hin mesta svívirða að þeir sem standa fyrir þeirri efnahagsstefnu sem kollvarpað hefur íslensku samfélagi skuli dirfast að bjóða okkur uppá sömu stefnu til úrlausnar. Sú ríkisstjórn sem nú situr verður að hverfa frá. Hún á ekki traust kjósenda skilið.
Það er eðlilegast, eins og málin standa, að mynduð verði utanflokks ríkisstjórn fram að nýjum kosningum, sem þarf að efna til um leið og núverandi flokkar hafa gengið í gegnum nauðsynlega endurnýjun með nýju fólki og nýjum hugmyndum. Hvernig sú utanflokksstjórn verður mynduð læt ég aðra um að skipuleggja. Löggjafarþingið myndi þó væntanlega sitja fram að kosningum. Við sem stöndum að hópnum Nýir tímar erum einungis að krefjast eðlilegra breytinga á stjórnskipulagi sem við teljum að meirihluta þjóðarinnar óski eftir. Að öðru leyti hefur hreyfingin enga pólitíska stefnu eða markmið.
Það sem ég persónlulega tel þó nauðsynlegt við uppbygginu á nýju lýðræði og betra samfélagi er meiri valddreifing og aukið sjálfstæði stofnana í landinu. Vald spillir og því er óeðlilegt og beinlínis hættulegt að það safnist fyrir á fárra hendur. Það hefur sýnt sig margsinnis að vald framkvæmdavaldsins er of mikið. Framkvæmdavaldið skipar í öll embætti í stjórnkerfi landsins og hefur einnig sjálfkrafa þingmeirihluta til að stjórna löggjafarvaldinu. Nokkrir aðilar fremstir í því pólitíska valdkerfi sem nú ríkir hafa því vald til að fylla embættismannakerfið af pólitískum jábræðrum og geta sömuleiðis, með krafti skósveina í eigin flokkum, stjórnað því hvaða lög eru sett í landinu. Það ber að skoða alvarlega hvort það sé ekki tímabært að aftengja löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið með einhverjum hætti og það verður að finnast ópólitísk leið til að velja embættismenn í stofnanir landsins. Það ætti að vera ljóst af árangri Seðlabankans undanfarin misseri í efnahagsmálum þjóðarinnar, að pólitískar puntudúkkur eru ekki best til þess fallnar að stjórna mikilvægustu stofnunum landsins, þegar nóg er af vel metnu og færu fagfólki. Sjálfstæðar ópólitískar stofnanir þurfa að vera frjálsar til að gagnrýna stefnu stjórnvalda þrátt fyrir að þurfa að fylgja henni, í stað núverandi stöðu, þegar stofnanir og stjórnendur þeirra eru múlbundnar stefnu stjórnvalda í krafti flokkavaldsins sem útvegaði þeim embætti.
Það er einlæg von okkar að núverandi þjóðfélagsumbrot leiði til sanngjarnara og réttlátara samfélags. Valddreifing er lykillinn að því að við getum búið við raunverulegt lýðræði, sú hætta er annars fyrir hendi að efnahagslegt og pólitískt vald muni færast á sífellt færri hendur.
Mætum öll í mótmælagöngu sem hefst á Hlemmi kl. 14:00 í dag, laugardag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Birgir Þórarinsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.